Ferill 935. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1498  —  935. mál.

1. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020 (ábyrgðarmenn, námsstyrkir).

Frá Teiti Birni Einarssyni og Berglindi Ósk Guðmundsdóttur.


    Við bætist ný grein, sem verði 1. gr., svohljóðandi:
    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Námslán eru veitt vegna náms við lýðskóla hafi skólinn hlotið viðurkenningu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu samkvæmt lögum um lýðskóla. Fullt nám við lýðskóla eru tvær annir. Nám við lýðskóla veitir ekki einingar en fullt nám telst samsvara 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum hvað vinnuframlag varðar. Til að ná lágmarksframvindu skv. 13. gr. þarf nemandi að skila 80% mætingu og þátttöku samkvæmt reglum viðkomandi skóla.

Greinargerð.

    Hér er lagt til að auðvelda ungu fólki aðgengi að lýðskólum hérlendis með því að nám við þá verði lánshæft með sama hætti og annað starfsnám. Nám við lýðskóla í dag er dýrt og í flestum tilfellum kostað af fjölskyldum nemenda. Markmið frumvarpsins er að auka jafnrétti til náms og styðja við þennan kost sem þegar hefur sýnt fram á gildi sitt, bæði samfélagslega og hvað þá einstaklinga varðar sem átt hafa kost á að stunda nám við lýðskóla hérlendis.